Aðdragandi dauða Lucidi er nokkuð óljós en samkvæmt miðlinum South China Morning Post sást síðast til hans er hann bankaði á glugga á 68. hæð Tregunter-turns í Hong Kong. Heimilishjálp sem var í íbúðinni hringdi á lögregluna en talið er að hann hafi lent í vandræðum og verið að leita sér aðstoðar er hann bankaði.
Hann féll til jarðar og lést áður en lögregluþjóna bar að garði. Á honum fannst myndavél sem sögð er hafa innihaldið myndefni af öðrum sambærilegum svaðilförum.
Lucidi er sagður hafa sagt öryggisverði í turninum að hann ætlaði að heimsækja vin sinn á 40. hæð. Skömmu síðar sást hann fara úr lyftu á 49. hæð og fara þaðan upp stiga á efstu hæð hússins þar sem hann virðist hafa spennt upp hurð til að komast út.
Ofurhuginn birti þessa mynd frá Hong Kong á Instagram í síðustu viku. Hann hefur birt mikinn fjölda mynda af sér upp á byggingum víða um heim.