„Við erum bjartsýn á að þetta taki ekki langan tíma. Við ætlum að vinna þetta mjög náið með foreldrasamfélaginu og skólastjórnendum. Við tökum þetta alvarlega,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, í samtali við fréttastofu.
Þór segir að hann og skólastjórnendur séu núna að fara yfir skýrslu verkfræðistofunnar Eflu um ástand húsnæðisins. „Við sitjum yfir aðgerðaplaninu núna og erum að semja það. Það verða meiri upplýsingar um þetta bara strax á morgun vænti ég.“
Fram kemur í skýrslunni að tvær skólastofur í Valhúsaskóla séu verstar. „Við þurfum að bregðast við strax þar,“ segir Þór. „Þetta er fimmtíu ára gamalt húsnæði þannig það er ekki óeðlilegt að það sé ekki alveg upp á tíu.“