Selvogur tilheyrir Sveitarfélaginu Ölfus en hér erum við að tala um lítið samfélag samhliða Suðurstrandavegi á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur. Þórarinn Snorrason, bóndi á Vogsósum, sem tilheyrir Selvognum og verður 92 ára næsta þriðjudag, segir margt hafa breyst í Selvogi frá því að hann var að alast þar upp.
„Þetta er allt komið í eyði núna. Þegar ég var að alast upp þá voru hérna um hundrað manns í Selvoginum en nú er það komið alveg niður undir tíu. Þetta er bara orðin eyðimörk miðað við það sem það var hvað fólkið varðar,“ segir Þórarinn.

Þórarinn segir að sumarið hafi verið mjög sérstakt í Selvogi hvað veðrið varðar.
„Já, sumarið er búið að vera dálítið óvenjulegt. Vorið var mjög kalt og leiðinlegt veður og svo þegar það fór að líða á þá komu þessir þurrkar, sem eru búnir að vera mikið á annan mánuð og það hefur nánast ekki komið dropi úr lofti hérna í júlí.“
Þórarinn segir að túnin hjá sér séu víða brunninn og líti illa út vegna rigningarleysis, allt sé orðið svo þurrt, ekki bara í Selvogi, heldur víða á Suðurlandi.
„Maður heyrir talað um hérna á Suðurlandi að heyskapur sé mjög víða 30% minni en í meðalári,“ segir Þórarinn.

Og Þórarinn segir umferða um Suðurstrandarveg mikla en hún fer öll fram hjá bænum hans.
„Það er nú mælir hérna, sem mælir umferðina hérna fyrir neðan túnið hjá mér. Þetta eru um 1500 bílar, sem fara hér um á hverjum degi, sem er ansi mikið,“ segir Þórarinn bóndi í Vogsósum.
