Í erindinu, sem birt er á vef bæjarins, segir að Íslandsmótið sé hápunktur íslensks skáklífs ár hvert. Í landsliðsflokki Íslandsmótsins tefla tíu til tólf sterkustu skákmenn landsins um Íslandsmeistaratitilinn. Undir erindið skrifar Gunnar Björnsson, forseti sambandsins.
Á næsta ári verða fjórtán ár síðan mótið var haldið í fyrsta og eina skiptið í Mosfellsbæ. Segir í erindi sambandsins að mótið hafi þótt takast afar vel og að enn þann dag í dag tali skákáhugamenn, sem lögðu leið sína á skákstað, afar vel um mótið og þá faglegu umgjörð sem bæjarfélagið hafi átt þátt í að skapa.
„Skáksambandið óskar því eftir stuðningi bæjarfélagsins við að halda mótið í bænum. Sá stuðningur gæti falist í fríu húsnæði, kaffiveitingum á meðan móti stendur, fjárhagsstuðningi upp á 500.000 kr. og lokahófi að loknu móti.“
Skáksambandið muni leggja til alla vinnu við mótið, verða með beinar útsendingar og útvega öll verðlaun. Segist sambandið ávallt leggja mikið upp úr umgjörð þessa móts og verði hún því öll hin glæsilegasta.
Þá segir sambandið að í kringum mótið mætti hafa aðra skákviðburði í bænum, líkt og barna-og unglingamót. Þannig mætti freista þess að ýta undir skáklífið í bænum og segist sambandið að sjálfsögðu tilbúið að aðstoða við auka skákkenslu við ungmenni í bænum.
Tekið er fram að mótið taki alls þrettán daga. Dagsetningar á bilinu 19. apríl til 12. maí henti sambandinu afar vel.