Rodgers, þessi reynslumikli leikstjórnandi í NFL-deildinni og algjör lykilmaður fyrir lið New York Jets, var að spila sinn fyrsta leik í NFL-deildinni fyrir Jets þegar að hann féll til jarðar eftir að hafa slitið hásin.
Hann verður frá út yfirstandandi tímabil og er það mikið högg fyrir þennan 39 ára gamla leikstjórnanda og ekki síður fyrir Jets.
„Þakkir til allra þeirra sem hafa sett sig í samband við mig, það gerir mikið fyrir mig,“ skrifar Rodgers í færslu á Instagram og er það í fyrsta skipti sem hann tjáir sig eftir að hafa hlotið meiðslin. „Ég er gjörsamlega niðurbrotinn og er að vinna mig í gegnum allar þær tilfinningar sem fylgja þessu. En ég er djúpt snortinn yfir stuðningnum og ástinni sem ég finn fyrir. Haldið mér í ykkar hugsunum og bænum nú þegar að ég byrja endurhæfingu í dag. Nóttin er alltaf dimmust rétt fyrir dögun og ég mun rísa á ný.“
Rodgers hefur í fjórgang verið valinn verðmætasti leikmaður NFL deildarinnar og þá hefur hann orðið Super Bowl meistari einu sinni. Forvitnilegt verður að sjá hvernig endurhæfing hans mun ganga og hvort hann muni ná sér það góðum að hann geti snúið aftur inn á völlinn í NFL deildinni.