Þingmenn fjögurra flokka vilja banna hvalveiðar og hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en á því má einnig finna þingmenn úr öðrum stjórnarandstöðuflokkum. Það er Samfylkingunni, Flokki fólksins og Viðreisn.
Hvalveiðar hófust að nýju í síðustu viku eftir að matvælaráðherra frestaði þeim í sumar. MAST stöðvaði í dag tímabundið hvalveiðar í öðru hvalveiðiskipi Hvals hf., Hval 8, vegna alvarlegra brota á velferð dýra við veiðar á langreyði.
Matvælaráðherra setti veiðunum strangari skilyrði í reglugerð sem hún setti áður en veiðarnar hófust að nýju í síðustu viku. Frá því að veiðarnar hófust hafa verið veiddar fjórtán langreyðar.
Andrés Ingi segir í færslu á Facebook-síðu sinni að það sé „ótækt að stefnulaus ríkisstjórn geti ekki tekið skýra ákvörðun um hvalveiðar.“
„Vandræðagangur síðustu mánuða hefur sýnt með skýrum hætti að Alþingi þarf að stíga inn og taka afstöðu með umhverfinu, loftslaginu og dýravelferð. Hvalirnir skulu njóta vafans - bönnum hvalveiðar,“ segir Andrés Ingi.
Hann segir að í frumvarpinu sé það lagt til að hvalveiðar verði alfarið bannaðar og að hvalir verði færðir undir verndarvæng villidýralaga, eins og önnur villt dýr í náttúru Íslands.