„Þetta er mín leið til að mótmæla. Framlag mitt til málstaðarins er einfaldlega að borða ekki. Þótt ég sé að segja frá því þá er það mjög persónuleg ákvörðun, mín leið til að sýna hvölunum samstöðu og að mótmæla því að þeir séu veiddir. Mín leið til að segja ríkisstjórninni að mér býður við þeirri ákvörðun þeirra að leyfa áframhaldandi veiðar,“ segir Samuel í aðsendri skoðanagrein á Vísi.
Hann segist að nokkru leyti langa að halda áfram þar til hann örmagnast.
„Ég held að þetta sé þess virði. Þetta er ekki neitt. Þú getur þolað þetta. Þú getur haldið áfram. Þú segir þér að sú þjáning sem þú finnur sé ekkert miðað við þá þjáningu sem hvalir þurfa að líða þegar þeir eru skotnir með sprengiskutlum.“
Samuel segist ekki vita hvort hungurverkfallið muni skila árangri, þó hann voni það. Hann vilji geta horft til baka og vitað að hann hafi gert eitthvað. Að leggja líkama sinn að veði sé ein leið til að gera það.
Dýraverndarsinninn gaf frá sér myndbandsyfirlýsingu fyrr í dag sem hægt er að horfa á hér að neðan.