Jafnræði ríkti með liðunum í upphafi leiks og aðeins tvö stig skildu liðin að eftir fyrsta leikhluta, staðan 17-19, Valskonum í vil. Valsliðið jók forskot sitt svo jafnt og þétt í öðrum leikhluta og leiddi með átta stigum í hálfleik, 32-40.
Valskonur tóku svo öll völd í þriðja leikhluta og liðið skoraði 19 stig gegn aðeins þremur stigum heimakvenna. Eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda og Íslandsmeistararnir sigldu heim öruggum 17 stiga sigri, 58-75.
Hildur Björg Kjartansdóttir átti stórleik fyrir Val og skoraði tuttugu stig, ásamt því að taka sex fráköst og gefa eina stoðsendingu. Ragnheiður Björk Einarsdóttir var stigahæst hjá Breiðabliki með fimmtán stig, tíu fráköst og eina stoðsendingu.