Þetta kemur fram í svörum Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, við fyrirspurn Vísis. Greint var frá því í gær að Kristín Þórðardóttir, sýslumaður á Suðurlandi, hafi verið sett tímabundið, í ár, sem sýslumaður í Vestmannaeyjum.
Arndís Soffía Sigurðardóttir, sem tók við embættinu í Vestmannaeyjum árið 2020, hverfur til annarra starfa hjá lögreglunni á Suðurlandi. Áður en hún tók til starfa hafði Kristín verið sýslumaður á Suðurlandi og Vestmannaeyjum síðan í upphafi árs 2019.
Á von á því að bæjarstjórn sé sama sinnis
Þá mótmælti bæjarstjórn Vestmannaeyja og sagði ekkert samráð hafa verið haft við bæjaryfirvöld. Í svari við fyrirspurn Vísis segist Íris eiga von á því að bæjarstjórn sé sama sinnis nú.
„Enda höfum við margsinnis á undanförnum árum þurft að taka þetta samtal um stöðu sýslumanns hér. Ég hef lýst óánægju minni við dómsmálaráðherra með þetta fyrirkomulag og ítrekað þá ósk að staðan væri auglýst.“
Íris segir að bæjarstjórn muni funda með Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra í vikunni. Þar verði farið yfir málið.