Í kjölfar úttektar slökkviliðsins í apríl voru gerðar athugsemdar við nokkur atriði. Aldís Rún Lárusdóttir, sviðsstjóri forvarnasviðs Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu segir að eiganda hafi verið sent bréf í kjölfarið og gefið tækifæri til úrbóta.
Brunavarnir í lagi fyrir utan brunastiga
Síðustu samskipti í málinu áttu sér stað síðastliðinn föstudag. Búið var að bæta úr öllum atriðum nema einu sem var gefinn aukinn frestur á, sem varðar brunastiga af annarri hæð.
„Út frá upplýsingum frá eiganda og staðfestinga sem hann sendir okkur myndi ég segja að brunavarnir hafi verið viðunandi, ef frá er talinn þessi flóttastigi sem vantar ennþá en er í ferli,“ segir Aldís.
Bruninn í gær kom upp á fyrstu hæð hússins svo ekki reyndi á brunastigann í því tilfelli.
Hlutverk slökkviliðs að tryggja brunavarnir
Búseta í iðnaðarhúsnæðum hefur verið í umræðunni síðustu mánuði og ár enda hafa komið upp þónokkuð margir brunar í slíkum húsnæðum. Í skýrslu sem gefin var út í fyrra um kortlagningu á búsetu í iðnaðarhúsnæðum kom fram að um tvö þúsund manns búi í atvinnuhúsnæði. Skýrslan var gefin út í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg árið 2020 þar sem þrír létust.
„Slökkviliðið getur ekki sagt hvort eitthvað sé í lagi eða ekki. Notkunin er ekki í samræmi við gildandi aðaluppdrætti. Nálgun slökkviliðsins hefur verið sú að tryggja að lágmarksbrunavarnir séu til staðar fyrir íbúa,“ segir Aldís Rún Lárusdóttir, sviðsstjóri forvarnasviðs slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.
