Greint var frá því í síðustu viku að ferðaþjónusturisinn Arctic adventures hefði keypt Kerfélagið af þeim Óskari, Ásgeiri Bolla Kristinssyni, sem oftast er kallaður Bolli í 17, Sigurði Gísla og Jóni Pálmasonum.
Af því tilefni ritar Óskar, sem hefur verið helsti fyrirsvarsmaður félagsins, kveðju úr Kerinu á Facebook.
Hann segir að þeir félagar hafi keypt kerið fyrir 23 árum, þegar ríkið vildi ekki kaupa af bændunum í Miðengi og ætlaðist til þess að þeir héldu þar öllu í standi á eigin reikning.
Allt hafi orðið vitlaust en gjaldtaka sé nú viðtekin venja
Þrettán árum síðar hafi þeir ákveðið að hefja gjaldtöku á svæðinu þegar ferðamennska þar var farin úr böndunum. Ekki hafi verið á annað kosið en að hefja gjaltöku og byggja palla og tröppur, leggja stíga og stórbæta bílastæðamál.
„Þá varð allt vitlaust. Við tókum ágjöfunum, stóðum þær af okkur og um síðir lægði öldur. Fólk sá að við vörðum aðgangseyri til uppbyggingar á staðnum, ríkið fylgdi fordæminu og hóf gjaldtöku á Þingvöllum. Nú er það viðtekin venja, óumdeild og átölulaus af ferðamönnum.“
Ómögulegt án aðkomu bændanna
Óskar segir að ekkert hefði orðið af verkefninu án aðkomu bændanna á Miðengi við kerið, sem seldu það á sínum tíma. Þeir hafi staðið allar vaktirnar, mokað, smíðað, brasað og brölt og hvergi hlíft sér.
„Reynið ekki svona ævintýri án heimamanna.“
Farnir að reskjast
Hann segir að þeir félagar hafi ákveðið að selja Kerfélagið þar sem þeir hafi fengið samþykkt deiliskipulag og komið sé að uppbyggingu frekari aðstöðu. Það séu tímamót sem gott er að staldra við.
„Svo eru þeir félagar mínir farnir að reskjast og síður tilbúnir í erfiðar ákvarðanir sem fylgja umsvifamiklum rekstri.“