Heilsdagsverkfall kvenna og kvára hefst á miðnætti í kvöld. Verkfallið stendur að þessu sinni í heilan sólarhring. Að verkfallinu standa hátt í 40 samtök. Áhersla er í ár lögð á að kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi verði útrýmt og að störf kvenna og kvára verði metin að verðleikum.
Búast má við því að verkfallið hafi veruleg áhrif á samfélagið allt, sem dæmi hefur verið gefið út að sundlaugar, skólar og leikskólar verði óstarfhæfir. Fjölmörg fyrirtæki hafa gefið út að ekki verður dregið af launum kvára og kvenna taki þau þátt.
Skipulögð dagskrá fer fram þann 24. október, um land allt. Á Akureyri, Neskaupstað, Egilsstöðum, Dalvík, Höfn, Húsavík, Blönduós, Sauðárkrók, Patreksfirði, Hvammstanga, Ísafirði, Raufarhöfn, Reykjavík, Stykkishólmi, Suðurnesjum, Vestmannaeyjum, Vík og Drangsnesi.

Konur og kvár í nærliggjandi sveitarfélögum við Reykjavík eru hvött til að sækja baráttufundinn á Arnarhóli. Rútuferðir hafa verið skipulagðar meðal annars frá Selfossi, Hafnarfirði og Reykjanesbæ.
Baráttufundur hefst á Arnarhóli klukkan 14 á morgun en vegna verkfallsins verða nokkuð víðtækar vegalokanir í miðborg Reykjavíkur. Sumar taka gildi í kvöld klukkan 18 á meðan aðrar taka gildi í fyrramálið.

Búist er við miklum fjölda á baráttufundinn en kynnar fundarins verða þær Ólafía Hrönn og Aldís Amah Hamilton
Tónlist: Sóðaskapur (pönk hljómsveit skipuð þremur ungum konum), Ragga Gísladóttir og Una Torfadóttir (leiðir fjöldasöng, Áfram stelpur).
Ræðufólk:
• Urður Bartels - ungt stálp úr MH
• Guðbjörg Pálsdóttir - formaður félags hjúkrunarfræðinga
• Alice Olivia Clarke - rekur fyrirtækið Tíra reflective accessories
Annað: Hópatriði, Jafnréttisparadísin - fjölbreyttur hópur kvenna og kvára fjallar um jafnréttisparadísina Ísland

Nánar er hægt að fræðast um daginn á vefnum kvennafri.is en þar er hægt að finna svör við algengum spurningum, upplýsingar um sögu verkfallsins, upplýsingar um skiltagerð í dag, mánudag, og svo viðburði á morgun, þriðjudag, en ýmislegt er í boði.
Farið verður í morgunhressingargöngur, haldnir baráttufundir, boðið í skiltagerð, danspartý, fyrirlestra og kvennakaffi, sunginn fjöldasöngur og margt fleira frá morgni til kvölds.
Sem dæmi geta konur og kvár byrjað morgundaginn með morgunhressingargöngu í kringum tjörnina í Reykjavík fyrramálið klukkan 9. Farið eftir það í samstöðukaffi og svo á fræðslufund. Eftir það er hægt að fara í samstöðuhristing í Bíó Paradís og svo upphitun á Hallveigarstöðum þar sem boðið verður upp á kaffi og kleinur. Eftir það hefst baráttufundur en honum lýkur klukkan 15.
Dagskránni er ekki lokið þá. Hægt er að fara í baráttugleði á Lost Hostel í boði Feminískra fjármála og svo í Útgáfuhóf myndabókarinnar ÉG ÞORI! ÉG GET! ÉG VIL í Pennanum Austurstræti.