Skoðun

Á­fram stálp og stelpur!

Sóley Tómasdóttir skrifar

Í dag leggja konur og kvár niður störf í áttunda skiptið á 48 árum. Á hverjum einasta degi síðan þá hefur einhver kona tekið einhvern slag. Eftir að hafa velt fyrir sér hvort það sé þess virði. Hvort hún eigi að nenna að bregðast við, hvort hún muni lenda í vandræðum, þykja of viðkvæm, of tilfinningasöm, of róttæk, of þetta eða of hitt. Í mörgum tilfellum, sennilega flestum, er niðurstaðan að þegja. Harka af sér og vona að einn góðan veðurdag taki einhver önnur þennan slag.

Það er ekki af því konur séu vondar, latar eða kjarklausar. Það er einfaldlega vegna þess að ef konur myndu taka alla slagina sem þarf að taka, þá myndu þær ekki gera neitt annað. Þær myndu ekki hafa tíma til að vinna vinnuna sína af því þær væru að útskýra eitthvað fyrir samstarfskörlum sínum 8 tíma á dag, jafnvel lengur. Þær myndu ekki hafa tíma til að sinna börnum eða heimili, hvorki annarri né þriðju vaktinni, af því þær væru að útskýra hluti fyrir mökum, pöbbum, bræðrum, mágum, vinum og vandamönnum og kenna þeim að axla ábyrgð.

Allir slagirnir

Formæður okkar þurftu sannarlega líka að velja sér slagi. Og þó þær hafi bara tekið brot af þeim slögum sem þær hefðu viljað taka, þá hafa þeir skilað okkur gríðarlega mikilvægum réttindum. Þær brutust til mennta og út á vinnumarkað, þær byggðu landspítala, bjuggu til leikskóla, Kvennaathvarf, Stígamót og allt hitt sem okkur finnst sjálfsagt í dag. Við þurfum að halda þessu áfram, breyta verðmætamati samfélagsins, útrýma kynbundnu ofbeldi og tryggja að reynsluheimur, þarfir, væntingar og framlag kvenna og kvára verði viðurkennt og samþykkt í samfélaginu.

Í dag tökum við einn sameiginlegan slag. Leggjum niður störf og krefjumst breytinga. Vonandi verður það til þess að auðvelda alla hina slagina, því baráttunni er hvergi nærri lokið. Til hamingju með daginn. Áfram stálp og stelpur!

Höfundur er aktivísti. 




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×