Greint er frá því í nýrri bók Guðmundur Magnússonar sagnfræðings um séra Friðrik Friðriksson, stofnanda KFUM, Vals og Hauka, að Friðrik hafi misnotað dreng. Þá er fjöldi drengja sagður lýsa því yfir að hafa ekki líkað við atlot hans og Drífa Snædal, talskona Stígamóta, sagði þar að auki í Kastljósi í gærkvöldi að fleiri brotaþolar Friðriks eða fólk þeim tengt hafi leitað til Stígamóta.
Á horni Amtmannsstígs og Lækjargötu stendur styttan „Séra Friðrik og drengurinn“ eftir Sigurjón Ólafsson, sem nam kristinfræði hjá Friðriki. Töluverð umræða hefur skapast um réttmæti styttunnar og segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fyllstu ástæðu til þess að safna upplýsingum um málið.
„Þetta er sláandi og ég held að mönnum hafi brugðið. Þannig að það er fyrsta skref í þessu að afla upplýsinga um það sem fram kemur í þesari bók og styttuna sjálfa og fara yfir þetta með borgarráði til þess að allir hafi upplýsingar um málið og við getum rætt það,“ segir Dagur.

Hann útilokar ekki að styttan verði færð en tekur fram að engin ákvörðun hafi verið tekin. Ekki sé ljóst hvernig möguleg framkvæmd þess yrði enda sé þetta fyrsta málið af þessum toga á borði Reykjavíkurborgar.
Svipuð mál hafa þó komið upp erlendis og var stytta af fjölmiðlamanninum og níðingnum Jimmy Savile í Glasgow til dæmis fjarlægð og henni síðar fargað.
Tekið fyrir á næsta fundi
Samkvæmt upplýsingum frá Listasafni Reykjavíkur var verkið gjöf frá KFUM og KFUK til borgarinnar og reist í kjölfar söfnunar sem efnt var til meðal almennings. Ákvarðarnir um það hvort minnismerki eða listaverk skuli standa í borgarlandinu eigi að taka af yfirvegun og hljóta umfjöllun í ráðum borgarinnar.
Dagur gerir ráð fyrir að málið verði tekið fyrir á næsta fundi borgarráðs.
„Fyrr en að við erum búin að því erum við ekki búin að mynda okkur skoðun. En ég tel fylsltu ástæðu til að fara vel yfir þetta,“ segir Dagur.