Fyrrverandi UFC-meistarinn Ngannou mætti Fury, einum fremsta þungavigtarboxara allra tíma, í boxbardaga í Ríad í Sádi-Arabíu á laugardaginn.
Ngannou þótti ekki líklegur til afreka gegn Fury en annað kom á daginn. Í þriðju lotu gerði Ngannou það sem afar fáum hefur tekist, að slá Fury í gólfið.
Englendingurinn stóð þó upp og var á endanum dæmdur naumur sigur. Niðurstaðan þótti umdeild og margir hafa velt því fyrir sér hvort Ngannou myndi áfrýja dóminum.
Það ætlar Ngannou ekki að gera enda telur hann enga möguleika á að ákvörðuninni verði snúið við.
„Hvert á ég að áfrýja þessu? Til breska hnefaleikasambandsins? Ég á enga möguleika. Það er bara önnur niðurlæging,“ sagði Ngannou við TMZ.
Ngannou vonast þess í stað eftir því að mæta Fury öðru sinni og fá þar tækifæri til að hefna.
„Mest af öllu vil ég fá annan bardaga. Ég er með marga möguleika í stöðunni en ég verð að velja rétt og ég vil helst fá annan bardaga fyrst,“ sagði Ngannou.