Brand er sakaður um að hafa, við upptökur gamanmyndarinnar Arthur, berað sig fyrir konu sem lék aukahlutverk í myndinni. Síðar hafi hann elt hana inn á salernið á tökustaðnum og beitt hana kynferðisofbeldi.
Konan hefur nú höfðað einkamál gegn honum fyrir bandarískum dómstólum og undir nafnleynd. Hún segir leikarann hafa verið sýnilega undir áhrifum áfengis þegar brotið átti sér stað í júlí 2010. Þá hafi meðlimur í framleiðsluteyminu staðið vörð um baðherbergisdyrnar meðan Brand misnotaði hana.
Fjórar breskar konur stigu fram í september og sökuðu Brand um kynferðislega áreitni og andlegt ofbeldi ydir sjö ára tímabil, frá 2006 til 2013. Þá var leikarinn kærður til lögreglu nokkrum dögum síðar fyrir kynferðisbrot sem hann á að hafa framið árið 2003.
Brand hefur neitað allri sök í þeim málum. Hann á enn eftir að bregðast við einkamálinu sem nú hefur verið höfðað.
Breska rannsóknarlögreglan Scotland Yard rannsakar nú meint brot hans. Til rannsóknar eru bæði ásakanir um ofbeldi sem á að hafa átt sér stað á breskri grundu og annars staðar.