„World Central Kitchen höfðu samband við okkur hjá Grindavík og vildu hjálpa okkur Grindvíkingum. Samtökin vinna á alþjóðavísu og veita mataraðstoð þar sem náttúruhamfarir eiga sér stað,“ kemur fram í færslu Jóns Júlíusar Karlssonar, framkvæmdastjóra Ungmennafélags Grindavíkur, í hópinn Aðstoð við Grindvíkinga á Facebook í dag.
Matarvagninn ISSI - Fish and Chips verður staðsettur fyrir utan Smárann í dag til að seðja hungur grindvískra körfuboltaunnenda í Kópavogi í dag. Jón tekur sérstaklega fram að fiskurinn sé að sjálfsögðu frá Grindavík.
„Við hvetjum því alla Grindvíkinga til að fjölmenna og fá endurgjaldslaust að þiggja Fish & Chips. Fiskurinn er af sjálfsögðu frá Grindavík!.“
Jón þakkar World Central Kitchen og Blikum fyrir gestrisni sína og væntumþykju. „Áfram Grindavík!“