Skúli Jónsson, stöðvarstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Vísi að lögregla hafi fengið tilkynningu um málið um eitt leytið í dag. Nemandinn hafi reynst fótbrotinn og var hann fluttur til aðhlynningar á slysadeild með sjúkrabíl. Lögregla hafi það til skoðunar hvernig fall barnsins bar að.
Jóhann Skagfjörð Magnússon, skólastjóri Garðaskóla segir í samtali við fréttastofu að hann geti ekki tjáð sig opinberlega um mál barnungra nemenda skólans. Hann benti þess í stað á Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur, upplýsingafulltrúa Garðabæjar vegna málsins. Hún sagðist ekki geta tjáð sig um málið, þar sem um væri að ræða mál barna.
Í tölvupósti sem sendur var til foreldra barna í skólanum í dag og fréttastofa hefur undir höndum var sagt að barn í skólanum hefði slasast á afmælishátíð í skólanum í dag. Líðan barnsins væri eftir atvikum.
Eðli málsins samkvæmt gætu skólayfirvöld ekki upplýst frekar um aðdraganda slyssins. Þá segir í tölvupóstinum að margir nemendur hafi orðið vitni að atburðinum. Foreldrar eru minntir á að námsráðgjafar, kennarar og stjórnendur séu tilbúnir að ræða við nemendur sem þurfi stuðning.