Aðalstyrktaraðili HM, írska veðmálafyrirtækið Paddy Power, mun á næstunni kynna nýtt píluspjald sem verður notað í Alexandra höllinni í London 15. desember-3. janúar næstkomandi.
Aðalbreytingin er að þrefaldur tuttugu reiturinn, sem flestir byrja á að kasta í, verður grænn en ekki rauður eins og hann hefur lengi verið. Píluspjaldið mun því tóna við sviðið í Ally Pally sem verður algrænt. Einnig verða græn ljós notuð til lýsa upp sviðið.
Þessi breyting ku vera úthugsuð enda hafa rannsóknir sýnt að grænt er á miðju sjónsviðinu og þægilegri litur að sjá en rauður og blár. Leikmenn ættu því að geta verið nákvæmari í köstum og ekki jafn þreyttir í augunum eftir að mæna á reitina á spjaldinu.
Leikmenn munu fá nýju spjöldin á næstunni, til að æfa sig fyrir HM sem hefst 15. desember eins og áður sagði.