Frá þessu segir í tilkynningu Marel til Kauphallarinnar. Þar segir að lagt hafi verið mat á óskuldbindandi viljayfirlýsingu JBT Corporation sem tilkynnt var um 24. nóvember 2023.
Stjórnin hafi samþykkti einróma að viljayfirlýsingin sé ekki í þágu hagsmuna hluthafa Marel. Hún taki hvorki tillit til innra virðis rekstrar Marel, né þeirrar áhættu sem fælist í framkvæmd viðskiptanna.
„Yfirlýst stefna Marel er skýr hvað varðar ytri vöxt og tækifæri til frekari samþjöppunar (e. consolidation) innan geirans eins og framkvæmd stefnu félagsins ber vitni um. Í samræmi við hlutverk sitt og ábyrgð er stjórn Marel tilbúin að leggja mat á vel ígrundaðar tillögur sem endurspegla að fullu virði Marel,“ segir í tilkynningunni.
Ekki lagalega bindandi
Sagt var frá því í síðustu viku að í viljayfirlýsingunni hafi komið skýrt fram að ekki væri um að ræða lagalega bindandi skuldbindingu. Yrði valkvætt yfirtökutilboð lagt fram á síðari stigum, yrði slíkt tilboð háð margvíslegum skilyrðum. „Viljayfirlýsingunni fylgdi óafturkallanleg yfirlýsing Eyris Invest hf., eiganda 24,7% hlutafjár í Marel, um samþykki Eyris Invest hf. verði tilboð lagt fram í tengslum við viljayfirlýsinguna,“ sagði í tilkynningu Marels til Kauphallar í síðustu viku.
Arnar Þór Másson er stjórnarformaður Marel og Ólafur S. Guðmundsson varaformaður stjórnar. Aðrir í stjórn eru Svafa Grönfeldt, Ástvaldur Jóhannsson, Ton van der Laan, Ann Savage og Lillie Li Valeur.
Gustað um félagið
Greint var frá því á dögunum að Árni Oddur Þórðarson væri hættur sem forstjóri Marel vegna réttaróvissu eftir að Arion banki leysti til sín hlutabréf hans í Eyri Invest, sem á stóran hlut í Marel. Árni Oddur var stjórnarformaður Marel í átta ár og forstjóri í tíu ár.
Arion banki gerði veðkall í hlutabréf Árna Odds þar sem hlutabréf í Marel höfðu fallið um 60 prósent á tveimur árum. Árni Oddur fékk í kjölfarið samþykkta greiðslustöðvun.