Skoðun

Hallamál til að­stoðar ríkis­stjórninni

Gabríel Ingimarsson skrifar

Ríkisstjórnin hefur gleymt einu sínu verðmætasta og mikilvægasta tóli í meintri baráttu sinni gegn verðbólgu, sjálfum fjárlögunum. Það er stórt vandamál ef fjárlög næsta árs eru ekki notuð til að rétta af hallarekstur ríkisins. Ef ríkisstjórnin heldur áfram á sömu braut mun það aðeins viðhalda verðbólgu og þýðir að vextir og verðlag halda áfram að hækka. Þetta þarf að leiðrétta.

Það er mjög opinberandi að sjá afneitun ríkisstjórnarinnar yfir stöðu mála - í þeirra huga er alls ekkert vandamál til staðar. Ryki er þyrlað í augu kjósenda með torskiljanlegri umræðu um frumjöfnuð, vaxtagjöld sem viljandi eru vanáætluð og innihaldslausum loforðum um tekjur sem er alls ekki búið að tryggja. En því miður eigum við ekki von á að ríkisstjórnin taki erfiðar ákvarðanir í þessu máli frekar en öðrum. Það eina sem þau eru sammála um er stöðnun.

Uppreisn - ungliðahreyfing Viðreisnar vill leggja sín lóð á vogarskálarnar og hjálpa ríkisstjórninni í þessum gríðarlega hallarekstri. Þess vegna heimsóttum við í morgun fjóra ráðherra: formenn stjórnarflokkanna þriggja og svo fjármálaráðherra og gáfum þeim rammheiðarleg hallamál. Hallamálin munu vonandi hjálpa ríkisstjórninni sjá hallann á ríkisfjármálunum, rétta hann af og að skilja og greina vandamálið sem þau eru að skapa fyrir skattgreiðendur framtíðarinnar.

Uppreisn vill sérstaklega geta þess að hallamálin voru valin eftir ítarlega verðrannsókn en þannig vildum við veita ríkisstjórninni gott fordæmi og eyða ekki fjármunum umfram það sem mætti teljast hófsamt eða nauðsynlegt. Í þessu tilfelli er það bráðavandi. Ef ríkisstjórnin sér ekki hallann þá þarf hún betri mælitæki.

Ekki er vitað til þess hvort hallamálin séu komin í notkun, en Uppreisn bindur miklar vonir við að verkfærin komi að góðum notum og að ráðherrarnir fari að snúa sér að því að koma böndum á skuldasöfnun og hallarekstur ríkisins.

Höfundur er forseti Uppreisnar - Ungliðahreyfingar Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×