Á vef Mannanafnanefndar má sjá úrskurði um fjórtán beiðnir um eiginnöfn sem kveðnir voru upp í gær. Aðeins tveimur beiðnum, um nöfnin Talia og Leah, var hafnað.
Nafninu Leah hefur ítrekað verið hafnað á þeim grunni að það sé ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem ekki sé ritað h í lok orða í íslensku. Nú taldi nefndin að hefð hefði ekki myndast um ritháttinn. Sömu sögu er að segja af rithættinum Talia af nafninu Talía.
Apel, Armand og Pálma samþykkt
Nefndin samþykkti tólf beiðnir um eiginnöfn. Karlmannsnöfnin Armand, Doddi og Óri voru samþykkt. Kvenmannsnöfnin Gjöll, Íviðja, Octavia, Olivía, Pálma, Strympa, Værð og Þyra voru samþykkt.
Þá var eiginnafnið Apel samþykkt og nafnið fært á mannanafnaskrá yfir kynhlutlaus nöfn.
Í úrskurði um eiginnafnið Strympa kom til álita hvort nafnið gæti orðið nafnbera til ama, en það mega eiginnöfn ekki samkvæmt lögum um mannanöfn.
Strympa látið njóta vafans þrátt fyrir að vera uppnefni
Þar segir að um Strympu sé fjallað í nafnfræðipistli Hallgríms Ámundasonar á vef Árnastofnunar 20. júní 2018. Samkvæmt pistlinum honum sé Strympa Grýluheiti, eða skessunafn og merki skass eða gróf kona.
Nafnið geti samkvæmt Þjóðsögum Jóns Árnasonar átt við eitt af börnum Grýlu. Einnig sé Strympa örnefni sem á við nokkur kotbýli, til dæmis í Odda á Rangárvöllum þar sem heytekja af bæjarþekjunni, við strompinn, var til hlunninda.
Merking orðsins sem samnefnis sé niðurmjó fata, hús með keilulaga þaki, strýta eða hóll í landslagi eða uppmjó húfa, stromphúfa og orðið skylt orðinu strompur.
Sem sérnafn hafi nafnið haft stöðu uppnefnis. Nýleg notkun þess á ofanverðri 20. öld sé í íslenskum þýðingum teiknimyndasagna úr frönsku eftir Belgana Peyo (Pierre Culliford) og Yvan Delporte um ævintýrapersónur sem kallast Strumpar og Strympa sé kvenkyns einstaklingur þeirrar tegundar, þýðing á La Schtroumpfette.
Líkt og frægt er orðið talaði Laddi fyrir Strympu í íslenskri talsetningu á teiknimyndunum um Strumpana.
Með vísan til tveggja dóma héraðsdóms kvað nefndin upp úrskurð um samþykki beiðni um eiginnafnið Strympa.
„Fjarlægur eða óviss möguleiki á því að nafn verði nafnbera til ama er ekki nóg til þess að hafna því. Eiginnafnið Strympa verður því látið njóta vafans.“