Alexei Navalní, pólitískur andstæðingur Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, missti af réttarhöldum í gærmorgun, eftir að lögmenn hans höfðu ekki náð tali af honum í tæpa viku. Forsvarsmenn fanganýlendunnar þar sem hann hefur verið í afplánun segja hann ekki lengur vera vistaður þar. Talskona Navalní segir engar upplýsingar að fá um hvar hann er.
Á vef Evrópuráðsþingsins er yfirlýsing Þórhildar Sunnu vegna hvarfs Navalní, sem hún lítur alvarlegum augum.
„Samkvæmt nýju fréttum er Alexei Navalní ekki lengur vistaður á fanganýlendu í Melekhovo, 235 kílómetra austan við Moskvu. Lögmönnum hans hefur verið meinaður aðgangur að honum og engar upplýsingar eru að fá um staðsetningu hans eða líðan,“ segir í yfirlýsingunni.
„Ég krefst þess að rússnesk yfirvöld upplýsi tafarlaust um staðsetningu Alexei Navalní, leyfi lögmönnum hans að hafa samband við hann og veiti honum viðeigandi læknisþjónustu. Umfram allt ítreka ég áskorun Evrópuráðsþingsins á rússnesk yfirvöld að sleppa tafarlaust öllum pólitískum föngum. Áframhaldandi fangelsisvist þeirra er brot á grundvallarmannréttindum, þar með talið tjáningarfrelsi og fundafrelsi, og tilheyrir ekki neins konar siðferði,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.
Þá hvetur Þórhildur þá meðlimi alþjóðsamfélagsins sem enn eru í nánum tengslum við Rússland, þar á meðal nokkur aðildarríki Evrópuráðsþingsins, að þrýsta á stjórn Pútíns og beita sér fyrir því að pólitískir fangar verði látnir lausir.
„Þetta kemur á sama tíma og fjöldi dauðsfalla í rússneskum glæpaárásum gegn Úkraínu er að nálgast eina milljón og fjöldi pólitískra fanga [...] er að ná nýjum hæðum. Og í ofanálag hefur Pútín tilkynnt að hann hyggst sækjast eftir endurkjöri. Evrópuráðsþingið hefur þegar gert ákall eftir að aðildarríki Evrópuráðsins viðurkenni ekki lögmæti stjórnar hans sem forseta eftir árið 2024,“ segir í yfirlýsingunni, í ljósi þess að embættisseta hans umfram kjörtímabilið brjóti bæði í bága við lög og alþjóðlegar réttarreglur.
Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér og nánari umfjöllun um mál Alexei Navalní má sjá hér.