Fyrir þá sem vilja ljúka öllum verkefnum dagsins án þess að þurfa tvisvar að finna bílastæði er opið í Kringlunni og Smáralind milli 10 og 13. Á Glerártorgi er opið frá 10 til 12. Í Firðinum í Hafnarfirði er opið milli klukkan 11 og 13.
Opið er í flestum matvöruverslunum í dag, fyrir þá sem enn eiga eftir að versla í matinn er opið í verslunum Bónus frá 10 til 14. Í verslunum Hagkaupa í Kringlunni og Smáralind er opið frá 9 til 14 en í Skeifunni, Garðabæ, á Akureyri, á Eiðistorgi og í Spönginni er opið til klukkan 16.
Verslanir Krónunnar verða opnar frá 9 til 15, að utanskilinni versluninni í Borgartúni sem er opin frá 8 til 15. Í verslunum Nettó opnar opnar ýmist klukkan 8, 9 eða 10 en lokar í öllu falli klukkan 14. Í Fjarðarkaupum er opið frá 9 til 12:30.
Fyrir þá sem eru á allra síðustu stundu er víða opið í Krambúðinni til klukkan 16 og í verslunum Extra til klukkan 17.
Venju samkvæmt er lokað í ÁTVR á sunnudögum og þar er aðfangadagur engin undantekning. Þá er lokað í ríkinu á jóladag og annan í jólum. Næst verður opið á miðvikudag.
Fram til klukkan eitt komast íbúar höfuðborgarinnar í sund. Þó er lokað í Dalslaug, Grafarvogslaug og Árbæjarlaug. Hér er hægt að sjá opnunartíma sundlauga víða um landið í dag og næstu daga.
Strætisvagnar aka samkvæmt sunnudagsáætlun á höfuðborgarsvæðinu. Síðustu ferðir leggja af stað um þrjúleytið. Enginn akstur verður á innanbæjarvögnum í Reykjanesbæ og á Akureyri. Nánari upplýsingar um akstur á landsbyggðinni má nálgast hér.