Í álitinu, sem Vísir hefur undir höndum, er leitað svara við því hvort lífeyrissjóðurinn Gildi hafi heimild að lögum til þess að gefa eftir kröfur á hendur lántakendum með því að fella niður vexti og verðbætur þeirra lántakenda sem búsettir eru í Grindavík, í takmarkaðan tíma, vegna þess ástands sem skapast hefur í bænum af völdum náttúruhamfara.
Í tilkynningu frá Gildi frá 13. desember síðastliðnum sagði að niðurstaða álitsgerðar lögmannsstofunnar LEX, sem unnin var fyrir Gildi vegna sjóðfélagalána í Grindavík, væri afdráttarlaus sú að lífeyrissjóðum sé ekki heimilt að afskrifa vexti og verðbætur með almennum hætti hjá lántökum.
Þá höfðu verið uppi háværar kröfur um að lífeyrissjóðir gæfu vexti og verðbætur eftir við frystingu lána Grindvíkinga, líkt og stóru viðskiptabankarnir þrír ákváðu að gera. Kröfurnar urðu svo háværar að fjölmenn mótmæli voru haldin í höfuðsstöðvum Gildis og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var sakaður um að hafa farið fram með offorsi. Hann vísaði öllum slíkum ásökunum á bug.
Lögfræðingarnir ekki sammála
Sem áður segir fékk Gildi lögmannsstofuna LEX til þess að vinna fyrir sig lögfræðiálit um það hvort sjóðnum væri heimilt að fella niður vexti og verðbætur lántakenda með almennum hætti.
Í tilkynningu þess efnis frá Gildi sagði að sjóðnum væri samkvæmt álitinu heimilt að taka til sérstakrar skoðunar einstaklingsbundnar aðstæður. Í því sambandi var bent á að lífeyrissjóðum er óheimilt að ráðstafa fjármunum í öðrum tilgangi en að greiða lífeyri.
Nú hefur Verkalýðsfélag Grindavíkur fengið lögmannsstofuna Magna lögmenn til þess að vinna fyrir sig sams konar álit. Eins og svo oft áður komast lögfræðingarnir að andstæðri niðurstöðu.
Ekki inngrip í eignarréttindi annarra sjóðfélaga
Í niðurstöðum álitsins segir að það leiði ekki af lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eða öðrum lögum að lífeyrissjóðnum Gildi sé óheimilt að fella niður vexti og verðbætur þeirra lántakenda sem búsettir eru í Grindavík, í takmarkaðan tíma, vegna þess ástands sem skapast hefur í bænum af völdum náttúruhamfara.
Niðurfelling vaxta og verðbóta við þær aðstæður sem nú eru í Grindavík eigi stoð í heimildum til rekstrar sjóðsins samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og meginreglum samninga- og kröfuréttar, eftir atvikum eins og þær hafa verið lögfestar, þar með talið í lögum um fasteignalán til neytenda.
Niðurfellingin myndi ekki fela í sér inngrip í eignarréttindi sjóðfélaga Gildis lífeyrissjóðs, sem væri andstætt ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi eignarréttarins.