„Það er búið að tryggja vettvang á þann hátt að það er alveg óhætt að senda fólk aftur niður,“ segir Jón Þór sem útskýrir að öryggi leitarfólksins sé í fyrirrúmi.
„Aðstæður á svæðinu eru mjög erfiðar,“ bætir hann við. „Það er aðallega vegna þess hvernig sprungan er. Þetta er bara mjög krefjandi verkefni. Það er í stöðugu mati, öryggi fólks á svæðinu.“
Mannskapur hefur verið boðaður út bæði fyrir nóttina og morguninn, ef þörf verður á því.
„Það verður unnið í þessu þangað til málið leysist.“
Að sögn Jóns er sprungan þess eðlis að hún opni í stærra rými sem er ekki sýnilegt að ofan. Hann segist hafa upplýsingar um það hvert rúmmál sprungunnar, og þar með leitarsvæðisins, sé talið vera.

Lögreglu barst tilkynning á ellefta tímanum í morgun þess efnis að maður sem hafði verið við störf við jarðvegsvinnu á svæðinu hefði fallið ofan í sprungu sem myndaðist þegar jörð gaf sig, en enginn sjónarvottur var að slysinu.
Maðurinn hafði verið að vinna að því að fylla í sprungu við hús sem sendur við Vesturhóp í Grindavík með það að markmiði að tryggja öryggi umhverfisins og hússins sem stóð við sprunguna.
Greint var frá því um eittleytið í dag að verkfæri mannsins hefðu fundist við leitina. Samkvæmt heimildum fréttastofu fannst svokölluð jarðvegsþjappa.