Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir í samtali við fréttastofu að hvarf mannsins sé bæjarbúum mikið áfall og sorg ríki í bænum vegna þess.
Hann hafi fundað með lögreglu og öðrum viðbragðsaðilum í dag þar sem farið var yfir framhald framkvæmda í bænum. Líkt og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, greindi frá í morgun hafi öllum framkvæmdum verið frestað fram yfir helgi.
Lagt að bæjarbúum að vera ekki á ferð á opnum svæðum
Fannar segir að undanfarnar vikur hafi verið lagt að íbúum Grindavíkur að fara að öllu með gát í bænum og alls ekki vera á ferðinni á opnum svæðum.
„Af því að það kunna að vera sprungur undir niðri sem eru ekki sýnilegar. Heldur eigi fólk að halda sig á gangstéttum og götum. Við höfum auðvitað séð holur og sprungur myndast hér og þar í bænum, reyndar á stöðum þar sem líklegast var að gæti komið til slíkra breytinga á jarðskorpunni. Þetta undirstrikar nauðsyun þess að fara mjög varlega.“
Ræddu lokun bæjarins
Fannar segir að meðal þess sem rætt var á fundum morgunsins hafi verið lokun bæjarins. Engin ákvörðun þess efnis hafi verið tekin enn en slík ákvörðun sé í höndum lögregluyfirvalda.
Íbúar sem hann hefur rætt við líði mjög illa vegna atburða gærdagsins og leitarinnar sem stendur yfir.