Í ágúst í fyrra sektaði Samkeppniseftirlitið Samskip um 4,2 milljarða fyrir að hafa með alvarlegum hætti brotið gegn samkeppnislögum með ólögmætu samráði við Eimskip. Samskip hafnaði niðurstöðunni og lögmaður fyrirtækisins sagði sektina til komna vegna samsæriskenninga sem enginn fótur væri fyrir.
Samskip áfrýjaði málinu í september og lagði fram kröfu þess efnis að áfrýjunarnefnd samkeppnismála myndi fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar að því er varðar greiðslu sektarinnar.
Þá krafðist fyrirtækið þess að réttaráhrifum fyrirmæla um aðgerðir sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni yrði frestað. Í þeim fyrirmælum felst að Samskip hætti öllu viðskiptalegu samstarfi við Eimskip og félög á þess vegum, nema sýnt væri fram á að samstarfið væri þess eðlis að ekki væri hætta á röskun á samkeppni.
Töldu yfirgnæfandi líkur á breytingu eða niðurfellingu sektarinnar
Til stuðnings því að fresta réttaráhrifunum töldu Samskip að greiðsla sektarinnar myndi valda fyrirtækinu fjárhagslegum erfiðleikum, málsmeðferð myndi taka langan tíma hjá áfrýjunarnefnd og að aðgerðir sem fyrirtækinu bæri að grípa til í því skyni koma í veg fyrir frekari brot og efla samkeppni væru til þess fallnar að valda því tjóni. Auk þess töldu Samskip að yfirgnæfandi líkur væru á því að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins yrði breytt eða hún felld úr gildi.
Fyrirmælum SKE ekki frestað
Í úskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála kemur fram að réttaráhrifum sektarinnar verði frestað vegna langs málsmeðferðartíma fyrir nefndinni. Þá er vísað til þess að aðstæður séu á margan hátt sérstakar og óvenjulegar, sem réttlættu frestun þeirra réttaráhrifa.
Þá kemur fram að kröfu Samskipa um að fresta réttaráhrifum fyrirmælanna um að fyrirtækið hætti öllu viðskiptalegu samstarfi við Eimskip og félög á þess vegum, nema sýnt væri fram á að samstarfið væri þess eðlis að ekki væri hætta á röskun á samkeppni, sé hafnað af áfrýjunarnefndinni. Fyrirmælin væru hvorki óvenjuleg né sérlega íþyngjandi í garð fyrirtækisins þannig að hægt yrði að réttlæta frestun réttaráhrifanna.