„Við auðvitað vonum það besta og höfum fulla trú á strákunum,“ segir Sonja Steinarsdóttir, ein af aðalfólkinu í Sérsveitinni, stuðningsmannasveit handboltalandsliðsins, um leik kvöldsins.
„Ég held að þetta verði rosalega spennuþrunginn leikur. Við verðum komin með allt of háan blóðþrýsting í seinni hálfleik en að svo takist þeim þetta í lokin og þetta verði bara eitthvað „legendary“ kvöld, og allir grenjandi af gleði í stúkunni,“ segir Sonja.
Hún ræddi við blaðamann á Hofbrähaus, risavaxna ölhúsinu í München þar sem Íslendingar hafa skapað svo góða stemningu fyrir leikina þrjá hjá Íslandi í C-riðlinum. Þangað komst Sérsveitin reyndar ekki klakklaust í dag, eins og fyrr segir:
Vagnstjórinn með þrumuræðu á þýsku
„Við erum sem sagt bara að labba út af hótelinu okkar og að fara að koma okkur hingað á barinn, og rétt að taka fram að það voru allir bláedrú ennþá.
Við erum bara að syngja og hafa gaman, og svo allt í einu stöðvast sporvagninn. Bílstjórinn kemur út, og heldur þvílíka ræðu yfir okkur á þýsku, þannig að við skiljum ekki orð af því sem hann segir. Svo endar hann bara á að segja „út! út!“ og fleygir okkur bara út úr vagninum. Þetta var alveg dásamlegt,“ segir Sonja hlæjandi og hafði greinilega gaman af þessum ýktu viðbrögðum vagnstjórans.
Ætla sér að halda áfram í Köln
Sérsveitin og aðrir stuðningsmenn íslenska liðsins, sem skipta þúsundum í München, hafa stutt strákanna okkar frábærlega en er engin þreyta komin í mannskapinn?
„Við erum rosa fín og tilbúin í leikinn í kvöld. Við erum ekkert mikið að partýast fram á nótt og yfirleitt farin snemma að sofa. Maður fer bara vel með sig og þá er þetta ekkert mál,“ segir Sonja sem eins og fyrr segir tilheyrir harðasta stuðningsmannakjarnanum í Sérsveitinni:
„Við erum svona 15-17 manns, auk barna og fleiri afleggjara. Það er misjafnt hverjir fara með í hverja ferð en núna erum við hérna ellefu manna kjarni,“ segir Sonja sem er staðráðin í að fylgja Íslandi alla leið: „Við erum klár í að fara til Kölnar [í milliriðilinn]. Við erum búin að gera ráð fyrir því síðan síðasta vor.“
Næsti leikur Íslands á EM er við Ungverjaland í kvöld klukkan 19.30. Öflugt teymi Vísis er á staðnum og fjallar ítarlega um mótið í máli og myndum.