Þetta kemur fram í skriflegu svari samskiptastjóra hjá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara við fyrirspurn fréttastofu.
„Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir töluverðri hagræðingu á þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar. Fjallað var um þessi mál í umræðum um fjárhagsáætlun í borgarstjórn í desember á síðasta ári. Aðgerða var þörf til að mæta breytingum í rekstri og fjárfestingum innan sviðsins. Í kjölfarið hófst greiningarvinna þar sem skipulag sviðsins og framkvæmd verkefna var rýnt,“ segir í svarinu.
Niðurstaða þeirrar vinnu hafi verið sú að fækka þyrfti stöðugildum hjá sviðinu. Samhliða hafi verið ákveðið að ráðast í skipulagsbreytingar. Skrifstofa sviðsstjóra verði því lögð niður og verkefni hennar færð á skrifstofu stafrænnar Reykjavíkur.
„Alls voru í dag tilkynntar breytingar á 23 stöðugildum. Í ellefu tilvikum verða annað hvort samningar ekki endurnýjaðir eða ekki ráðið í lausar stöður. Ennfremur kom til tólf uppsagna þegar störf voru lögð niður. Þessum aðgerðum ætti nú að vera lokið og engar áætlanir eru uppi um frekari breytingar á sviðinu.“