„Við stöndum frammi fyrir orðnum hlut. Það verður ekki hægt að nota íbúðarhús í Grindavík næstu misserin. Að henda þessu í fangið á Grindvíkingum að auka óvissuna sem þeir standa frammi fyrir, það mun vissulega auka kostnaðinn sem þjóðfélagið í heild verður fyrir.
Það er mikilvægt að stjórnvöld taki af skarið og segi: „Þetta verði leyst“, hvort sem það verði gert með því að breyta lögum um náttúruhamfaratryggingar eða með því að stofna eigin viðlagasjóð. Þetta er allt saman eitthvað sem menn hefðu betur átt að hugsa almennilega í gegnum og eru búin að hafa nokkurn tíma til að hugsa vegna þess atburðirnir eru ekki alveg nýfarnir af stað. Þetta er tveggja, þriggja ára gömul atburðarás,“ segir Þórólfur.
Þú ert sem sagt að segja að viðbrögð stjórnvalda við þessu ástandi séu að koma fram of seint?
„Já, ég er að segja það.“
Svipuð staða kom upp fyrir hálfri öld
Þórólfur segir að svipuð staða hafi komið upp í eldgosinu í Vestmannaeyjum fyrir hálfri öld og þá hafi stjórnvöld stofnað Viðlagasjóð sem hafi bætt Vestmannaeyingum allt frá atvinnumissi til fasteignamissis. Það sé hægt að líta til þeirrar leiðar nú.
„Það var síðan fjármagnað með því að hækka alla helstu skattstofnana. Það má alveg rifja upp núna að Norðurlandaþjóðirnar greiddu einn þriðja af öllum þeim kostnaði sem féll vegna viðlagasjóðs á sínum tíma,“ segir Þórólfur.
Hann segir að það í raun séu nú þrír kostir í stöðunni. Í fyrsta lagi að ríkið kaupi allt íbúðarhúsnæði í Grindavík, í öðru lagi að ríkið eða Náttúruhamfaratrygging greiði öllum eigendum leigu af húsnæði sem Almannavarnir banna notkun á og í þriðja lagi að eigendur geti valið milli þess að selja eða fá greidda leigu.
Líklega sé það þriðju kosturinn sem kæmi Grindvíkingum best.