Íslenska liðið hefur fengið flottan stuðning á mótinu og okkar stuðningsfólk er tilbúið í slaginn fyrir fjörið í stúkunni í Lanxess höllinni í Köln.
Liðið okkar er án tveggja mikilvægra leikmanna í leiknum í dag og er enn fremur svolítið brotið eftir þrjá tapleiki í röð. Það reynir því á þetta góða stuðningsfólk að koma með stemmninguna á pöllunum og vonast eftir því að ná að kveikja neistann hjá íslensku strákunum sem þurfa sigur ætli þeir að halda Ólympíudraumnum á lífi.
Ríkharð Óskar Guðnason, oftast kallaður Rikki G, er mættur til Þýskalands og hann stýrði hópsöng fyrir Króatíuleikinn í dag. Stuðningsfólkið tók vel undir og hitaði vel upp áður en farið var í höllina.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, var á upphitun hópsins í Köln og það má sjá skemmtilegar myndir frá partýinu hér fyrir neðan.














