Loðnan hefur undanfarin ár verið næstverðmætasti veiðistofn Íslendinga á eftir þorskinum. Í frétt Stöðvar 2 kom fram að verðmæti loðnuafurða af vertíðinni í fyrravetur nam sennilega um 60 milljörðum króna og árið þar á undan um 55 milljörðum króna.
Þannig að ef það verður loðnubrestur í vetur yrði það stórt áfall fyrir þjóðarbúskapinn. Veiðiglugginn er stuttur, í raun bara nokkar vikur fram í mars.

Mynd frá Hafrannsóknastofnun sýnir leitarferla þeirra fjögurra skipa sem tóku þátt í loðnuleitinni en henni lauk í gær. Þetta voru hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson og tvö skip sem útgerðin lagði til, Ásgrímur Halldórsson frá Hornafirði og grænlenska skipið Polar Ammassak.
Frá því í síðustu viku eru þau búin að þræða Íslandsmið undan Vestfjörðum, úti fyrir Norðurlandi og niður með Austfjörðum. Hafís milli Grænlands og Íslands hindraði hins vegar leit þar en vísindamenn Hafrannsóknastofnunar segja sterkar líkur á að undir hafísnum sé enn loðna, sem ekki tókst að mæla.

Kort Hafrannsóknastofnunar sýnir hvar loðna sást. Grænu flekkirnir sýna hvar hún var talsvert dreifð en rauðu og gulu flekkirnir sýna hvar hún var þéttust, sem var einmitt við hafísjaðarinn út af Vestfjörðum. Þessvegna áformar Hafrannnsóknastofnun að fara í annan leiðangur í febrúar í von um að þá verði stórar loðnutorfur komnar undan ísnum.
Ákveðin byggðarlög eiga meira undir loðnuveiðum en önnur, flest á Austfjörðum. Loðnu hefur undanfarin ár verið landað á níu stöðum. Vestmannaeyjar teljast stærsta loðnuverstöðin með mestan landaðan afla og Neskaupstaður er í öðru sæti.

Binni í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, sagði í samtali við fréttastofu að tíðindin frá Hafrannsóknstofnun í dag veiktu vonina. Þetta yrði erfiðara úr þessu.
Gunnþór Ingvason hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað sagði Norðfirðinga hins vegar ennþá vera bjartsýna um loðnuveiðar. Dæmi væri um að ekkert hefði farið í gang fyrr en um miðjan febrúar. Það væri því allt of snemmt að afskrifa loðnuvertíð.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: