Fjallað er um málið í Heimildinni sem kom út í dag en þar segir að bróðir mannsins, Elías Pétursson, hafi staðfest við þau að fjölskyldan hafi óskað eftir því að hvarf Lúðvíks yrði rannsakað af sjálfstæðum og óháðum aðilum. Það sé þörf á því og að mörgum spurningum sé enn ósvarað um aðdraganda, ákvarðanatöku og atburðarásina í Grindavík.
Þá kemur fram í frétt Heimildarinnar að fjölskylda mannsins hafi ítrekað, á meðan leit fór fram, fengið fréttir af leitinni og framgangi hennar í fjölmiðlum. Til dæmis þegar leit var hætt tímabundið þann 12. janúar. Leit var formlega hætt síðar sama kvöld. Lögreglustjóri, Úlfar Lúðvíksson, vísaði til þess að aðstæður væru ótryggar og að ekki væri forsvaranlegt að senda menn niður í sprunguna til áframhaldandi leitar.
Á meðan leit fór fram var greint frá því að aðdragandi slyssins hefði verið sá að hrun varð í sprungu sem unnið var við að fylla inn í sem dró Lúðvík ofan í hana. Annað hrun varð svo í sprungunni síðar sem gerði verkið enn erfiðara. Sprungan sem var fyllt í var við íbúðarhús í bænum.