Í tilkynningu á vef bankans segir að bankinn hætti þannig að taka við og selja seðla í eftirfarandi myntum; áströlskum og kanadískum dollurum, dönskum, sænskum og norskum krónum, svissneskum frönkum og japönskum jenum.
Salan dregist saman
Ástæða breytinganna er sögð sú að gjaldeyrissala hafi farið mjög minnkandi undanfarin ár, fyrst og fremst með tilkomu tækninýjunga en einnig vegna þrengri skorða vegna peningaþvættisreglna hérlendis sem og erlendis.
Þá hafi nær öll gjaldeyrissala síðustu missera farið fram í þeim fjórum myntum sem bankinn mun áfram bjóða upp á, það er USD, GBP, PLN og EUR.
Fólk drífi sig í bankann
Þeir sem eiga seðla í þeim myntum sem bankinn hyggst hætta að taka við og vilja skipta yfir í íslenskar krónur í útibúi Arion þurfi að gera það í síðasta lagi 15. mars 2024. Nauðsynlegt sé að eiga innlánsreikning hjá bankanum og hafa lokið áreiðanleikakönnun.
Ofangreint feli ekki í sér nokkra breytingu á úrvali gjaldeyrisreikninga bankans þótt ekki verði lengur tekið við fyrrnefndum seðlum.