Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.
Þar segir að vel hafi gengið að koma íbúum inn í bæinn frá Nesvegi annars vegar og Suðurstrandavegi hins vegar. Kerfið sem komið hafi verið upp geri það að verkum að viðbragðsaðilar hafi góða yfirsýn yfir það hverjir dvelji innan bæjarmarkanna hverju sinni.
Í tilkynningunni segir að umsóknir vegna aðstoðar við Grindvíkinga séu margar. Mikil vinna sé í gangi við að yfirfara beiðnirnar en öllum verði svarað.
„Þegar ljóst er hvenær hver og einn fær aðstoð vegna flutninga fær viðkomandi símtal, erfitt er að segja til um hvenær hringt verður í þau sem hafa sent inn beiðni. Búið er að láta þau vita sem fá aðstoð á morgun, mánudag,“ sagði í tilkynningunni, sem barst í gærkvöldi.
Öllum beiðnum sem snúa eingöngu um búslóðageymslu hefur verið svarað.