Viðræðurnar strönduðu aftur á móti á kröfum breiðfylkingarinnar um forsendur samninganna, það er að segja um áhrif þróunar verðbólgu og vaxta á samningana. Forysta SA segir forsenduákvæðin binda hendur Seðlabankans og hefta sjálfstæði hans.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir þetta af og frá.
„Boltinn er auðvitað hjá Samtökum atvinnulífsins. Ég vona að fólk þar jarðtengist aðeins og sjái að okkar kröfur eru skynsamlegar og góðar og báðum samningsaðilum fyrir bestu,“ sagði Sólveig Anna að loknum fundi í dag.
„Þetta snýst um varnir fyrir launafólk en ekki það að binda Seðlabankann.“

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR tekur undir þetta og segir mikla samstöðu ríkja um áherslur innan breiðfylkingarinnar. Seðlabankinn vinni eftir forsendum hvers tíma og spyrji ekki stéttarfélögin þegar hann hafi ítrekað gagnrýnt þau.
„Við erum að meta okkar stöðu út frá mörgum vinklum. Það tekur tíma og það þarf að vanda til verka varðandi næstu skref. Hvort sem það verði við kjarasamningaborðið eða einhvers staðar annars staðar,“ segir Ragnar Þór.