Þetta kom fram í máli Atla Geirs Júlíussonar á íbúafundi Grindvíkinga í kvöld. Hann segir að á miðvikudag verði byrjað á því að hleypa köldu vatni inn á hafnarsvæði bæjarins klukkan 10, 13 og 14.
„Þetta þarf að gerast í ákveðnum skrefum og svo munum við byrja að þreifa fyrir okkur inni í bænum eftir það. Af því að við höfum ekkert vatn á kerfinu, þannig að við vitum í raun og veru ekki alveg hvernig staðan er á dreifikerfi vatnsveitunnar í bænum. Það mun raungerast fyrir okkur þegar vatnið kemst á stofninn og við byrjum að láta þetta seitla inn í bæinn. Vonandi mun það ganga vel, vatnsveitan okkar sýndi ótrúlega seigju.“
Fráveitan tekur lengri tíma
Atli Geir segir að lengri tíma muni taka að koma fráveitukerfi bæjarins í lag.
„Við náttúrulega hvorki pissum né kúkum á meðan við höfum ekki vatn. Meðfram þessari vinnu vonumst við til þess að geta farið að nota fráveitukerfið okkar og við munum meta það jafnt og þétt hvernig fráveitan liggur út. Fyrir þennan viðburð 14. janúar var fráveitan orðin virk hjá okkur. Það er ákveðin bjartsýni í vestari hlutanum og hafnarsvæðinu, af því að þar höfum við ekki séð svona miklu aflögun á landinu. En við erum nokkuð vissir um að austurhlutinn sé að einhverju leyti tjónaður.“
Hann segir að það að gera við kalda vatnið í austari hluta bæjarins sé nánast að „ljúga það saman“ en þegar kemur af fráveitunni þurfi að treysta á sjálfrennsli og slíkt. Það gæti orðið flóknari aðgerð.