Kolaportið hefur verið rekið hér á neðstu hæð Tollhússins í tuttugu ár. Nú er komið að tímamótum og það þarf að finna annað húsnæði fyrir starfsemina.
Fyrir tæpum tveimur árum var ákveðið að öll starfsemi Listaháskóla Íslands yrði sameinuð í Tollhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík og að Kolaportið þyrfti að víkja. Borgarstjórn vill ekki að með þessu hverfi eini almenningsmarkaður Miðbæjarins.
Málið hefur verið til skoðunar innan borgarinnar um nokkurt skeið og hafa sex staðsetningar verið skoðaðar sérstaklega. Sú staðsetning sem borginni líst best á er Miðbakkinn við Reykjavíkurhöfn, beint á móti Tollhúsinu.
Leita að réttum rekstraraðila
Nú verður hins vegar framkvæmd markaðskönnun til að finna nýjan stað og nýja rekstraraðila fyrir markaðstorg. Að sögn Einars Þorsteinssonar borgarstjóra verða rekstraraðilar að taka mið af breyttu landslagi.
„Hluti þessarar verslunar hefur færst annað. Fyrst fór það á netið, verslanir með notuð föt. Svo hafa sprottið upp þessar búðir, Barnaloppan og alls konar loppubúðir. Þetta er svona aðeins að gerjast en ég held að það sé gott að byrja með autt blað en sýn á það að við viljum hafa markað í Reykjavík,“ segir Einar.

Kjörinn í borgarstjórn í Kolaportinu
Og Kolaportið á sér sinn stað í hjarta Einars, til að mynda fór kosningavaka Framsóknarflokksins þar fram þegar Einar var kjörinn inn í borgarstjórn fyrir tveimur árum síðan.
„Mér hefur alltaf þótt gaman að fara í Kolaportið. Það er ákveðin stemning og gaman að skoða. Stundum kaupa, kaupa harðfisk og svona,“ segir Einar.
Hér fyrir neðan má sjá klippu af ræðu Einars frá kosningavöku Framsóknarflokksins árið 2022.