Það er Aftenposten sem greinir frá því að Rosenborg fylgist grannt með stöðu Orra, en hann er í dag leikmaður danska stórliðsins FC Kaupmannahafnar.
Orri, sem er aðeins 19 ára gamall, hefur skorað tvö mörk í níu deildarleikjum fyrir FCK á yfirstandandi tímabili og sjö mörk í 17 leikjum í öllum keppnum. Tækifærin hjá liðinu hafa hins vegar verið af skornum skammti hjá Orra undanfarnar vikur og mánuði og því ekki ólíklegt að framherjinn sé farinn að líta í kringum sig.
Þá er norska liðið Rosenborg í framherjaleit um þessar mundir, en þrír af framherjum liðsins eru að glíma við meiðsli.
Orri hefur verið hjá FCK síðan árið 2020 þar sem hann hefur skorað níu mörk í 37 leikjum í öllum keppnum. Þá hefur hann skorað tvö mörk fyrir íslenska landsliðið í sex landsleikjum.