„Þetta er mikill gleðidagur. Sundlaugin er eins og félagsmiðstöð hérna í bænum. Heitu pottarnir og sánan hafa verið opin og hefur eldra fólkið komið á morgnana og aðrir eftir vinnu. En börnin hafa ekki komist í laugina síðan 16. október þegar lauginni var lokað,“ segir Ragnheiður Halla Ingadóttir, starfsmaður sundlaugarinnar, í samtali við fréttastofu.

Fréttir bárust af því í haust loka hafi þurft lauginni eftir að grunur kviknaði um leka. Kom í ljós að dúkurinn væri ónýtur enda kominn til ára sinna. Könnun leiddi þá í ljós að vatnsyfirborðið lækkaði um 25 sentimetra á einum sólarhring.
Tekur einhverja daga að fylla laugina
Ragnheiður Halla segir að einhverja daga komi til með að taka að fylla laugina og sömuleiðis að ná réttu hitastigi. „En þetta lítur svakalega vel út og við erum öll mjög spennt að komast aftur ofan í laugina okkar.“
Dúkurinn í laugarkerinu var frá byggingarári hússins eða árið 1996 og því orðinn 28 ára gamall. Almennt hefur verið talað um að endingartími sé um tuttugu ár.
Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sagði í samtali við fréttastofu fyrr á árinu að áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar væru um tólf milljónir króna.


