Axel Óskar er 26 ára gamall örvfættur miðvörður sem hefur komið víða við á ferlinum. Hann er uppalinn í Aftureldingu og lék átta leiki fyrir félagið í 2. deild aðeins 16 ára gamall sumarið 2014.
Hann samdi í kjölfarið við Reading og var samningsbundinn liðinu til 2018 en lék með Bath City og Torquay á Englandi sem lánsmaður áður en hann gekk í raðir Viking í Stafangri hvar hann vann norsku B-deildina.

Hann var leikmaður Viking frá 2018 til 2020 en hélt þá til Lettlands og spilaði ellefu deildarleiki fyrir lið Riga áður en þeim samningi var slitið á miðju tímabili 2022. Þá hélt hann til Örebro hvar hann hefur leikið síðan en Axel náði samkomulagi um samningslok á dögunum og hefur því verið frjáls ferða sinna.
Hann mun nú styrkja vörn KR en KR-ingar hafa misst þá Kristinn Jónsson, Kennie Chopart og Jakob Franz Pálsson úr varnarlínunni frá síðustu leiktíð en litlu bætt við hana.
Axel Óskar mun veita þeim Finni Tómasi Pálmasyni, Birgi Steini Styrmissyni og Lúkasi Magna Magnasyni samkeppni um miðvarðarstöðuna hjá Vesturbæjarfélaginu.
Besta deild karla hefst með leik Víkings og Stjörnunnar þann 6. apríl en KR hefur keppni sunnudaginn 7. apríl með heimsókn til Fylkis í Lautina.
KR mætir Stjörnunni í síðasta leik sínum í Lengjubikarnum klukkan 17:00 í dag en sá leikur verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.