Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um loðnuna en í venjulegu árferði væri íslenski loðnuflotinn þessa dagana að ljúka loðnuvertíð. Loðna í nægilegu magni til að réttlæta veiðar hefur hins vegar ekki ennþá fundist.
-Er hægt að segja núna að það sé loðnubrestur þennan veturinn?
„Já, ég held við getum sagt það með mjög mikilli vissu að það verður ekki loðnuvertíð þennan veturinn,“ svarar fiskifræðingurinn Guðmundur Óskarsson, sviðstjóri uppsjávarsviðs á Hafrannsóknastofnun.

Hann segir allmikla leit hafa verið gerða að loðnunni í vetur en telur að það sé í rauninni bara minna af henni en gert hafi verið ráð fyrir í haust.
Síðasta loðnuleitarleiðangri, þeim þriðja frá áramótum, lauk án árangurs í febrúarlok. Ábendingar um loðnugöngur síðan hafa að mati fiskifræðinga ekki þótt nægilega afgerandi til að bregðast við.
„Það er komin loðna fyrir utan Breiðafjörð að hrygna, bara í litlu magni. En það er allavega hrygning að eiga sér stað,“ segir Guðmundur.

Loðnuvertíðin í fyrra var óvenju góð, gaf milli 50 og 60 milljarða króna útflutningsverðmæti. Fáir bjuggust við öðru eins ævintýri í ár. Engu að síður voru væntingar um kannski 20 milljarða króna vertíð. Þetta er því skellur.
„Já, örugglega. Því að við gerðum ráð fyrir að það gæti orðið einhver vertíð, þó að hún yrði aldrei mikil. Kannski milli 100 og 200 þúsund tonna vertíð. En það gengur ekki eftir, það er alveg ljóst.
Þetta er bara leiðinlegt. En svona er þetta. Við erum búin að fá núna þrjú ár með loðnu. Ágætisvertíðir tvær þarna. Þar á undan voru tvö loðnuleysisár.“

Þegar spurt er um skýringar segir Guðmundur vitað að loðnan hafi upp úr aldamótum tekið að færa sig nær Grænlandi, sennilega vegna umhverfisbreytinga í hafinu.
„Síðan þá hafa vertíðirnar ekki verið eins stórar. Framleiðni stofnsins hefur ekki verið eins mikil. Af hverju vitum við ekki. En mögulega er það svæði bara ekki að gefa eins mikið,“ svarar fiskifræðingurinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: