Dánaraðstoð er umdeild en í grófum dráttum má segja að um tvennt sé að ræða; annars vegar það að læknir aðstoðar sjúkling við að deyja með lyfjagjöf í æð (e. euthanasia) og hins vegar að læknir sér sjúklingi fyrir lyfi sem sjúklingurinn tekur sjálfur til að binda enda á líf sitt (e. assisted suicide).
Dánaraðstoð hefur verið leidd í lög í átta Evrópuríkjum samkvæmt samtökunum Lífsvirðingu; Hollandi, Belgíu, Lúxemborg, Sviss, Þýskalandi, Spáni, Austurríki og Portúgal. Þá er hún heimil í um tug ríkja Bandaríkjanna.
Sums staðar er sjúklingum heimilt að ákveða að hætta að þiggja næringu í æð en það úrræði flokkast ekki undir dánaraðstoð né heldur hefðbundin lífslokameðferð, þar sem markmiðið er að draga úr þjáningu þegar ljóst þykir að viðkomandi á aðeins daga eða vikur eftir ólifaðar.
Kannanir benda til þess að meirihluti sé fylgjandi dánaraðstoð, meðal landsmanna, heilbrigðisstarfsmanna og sjúklingasamtaka. Málefnið hefur hins vegar ekki fengið mikla umræðu í samfélaginu og það hefur reynst erfitt að fá lækna og hjúkrunarfræðinga til að tjá sig um málið.
Samtökin Lífsvirðing hafa lengi talað fyrir því að dánaraðstoð verði lögleidd á Íslandi en í umsögn félagsins um frumvarpið sem nú liggur fyrir eru gerðar ýmsar athugasemdir og ýmsum spurningum ósvarað.
Hverjir nákvæmlega eiga að eiga kost á dánaraðstoð? Á aðstoðin að standa bæði líkamlega og andlega veikum til boða? Hvað með börn með ólæknandi sjúkdóma?
Þessar spurningar og fleiri verða til umræðu í Pallborðinu klukkan 14 í dag, sem sýnt verður í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi. Gestir eru Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, Henry Alexander Henrysson siðfræðingur og Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar.