Maðurinn sem var á sextugsaldri var af erlendu bergi brotinn en búsettur á Íslandi.
Í tilkynningu lögreglu segir að skömmu fyrir hádegi í dag hafi lögreglunni borist tilkynning þess efnis að maður hefði ekki skilað sér til vinnu eftir páska. Síðast hafði heyrst af honum á páskadag og hafði hann þá ætlað að ganga að Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi. Lögreglan hóf þegar eftirgrennslan og fann bifreið hans á bifreiðastæði við Skóga.
Maðurinn var látinn þegar hann fannst um fjögurleytið í dag skammt frá Baldvinsskála. Fram kemur að veður á Fimmvörðuhálsi hefur verið lélegt síðustu daga og aðstæður til göngu á því svæði ekki góðar.
„Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins, en ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti,“ segir í tilkynningunni.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar hefði komið auga á manninn úr lofti, ekki langt frá Baldvinsskála.
Þá var björgunarsveitarfólk frá Hvolsvelli og Hellu komið á svæðið og voru aðrar sveitir afboðaðar. Björgunarsveitarfólk fór um á vélsleðum, hjólum og fótgangandi og var leitað á og við gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls.