Úkraínumenn eiga undir högg að sækja þessa dagana þar sem Rússar hafa verið að sækja hægt fram. Skotfæraleysi fyrir stórskotalið hefur plagað úkraínska hermenn, sem hafa þó látið Rússa gjalda fyrir framsókn þeirra.
Forsvarsmenn úkraínska hersins lýstu því yfir undir lok síðasta árs að þeir þyrftu um hálfa milljón hermanna en nú hafa nýir menn tekið við stjórn hersins og segja þörfina ekki svo mikla, þó hún sé mikil.
Margir hermenn hafa verið á víglínunni í Úkraínu frá því innrás Rússa hófst í febrúar 2022 og hefur gengið erfiðlega að skipta þeim út til að hvíla þá.
Fyrr í stríðinu gátu hermenn búist við því að verja um tveimur vikum á víglínunni og fá svo viku hvíld. Þessi hvíldartími hefur dregist verulega saman og hafa hermenn sagt að ekki sé óvanalegt að nú verji þeir mánuði á víglínunni og fái svo einungis fjögurra daga hvíld.
Þúsundir karlmanna í Úkraínu hafa einnig komist hjá herkvaðningu með því að flýja land eða beita öðrum leiðum.
Fjarlægðu ákvæði um lausn frá herkskyldu
Meðal þess sem deilt hefur verið um varðandi frumvarpið er hvaða leiðir eigi að fara varðandi það að leyfa kvaðmönnum að hætta í hernum.
Frumvarpið var samþykkt eftir að varnarmálanefnd þingsins fjarlægði ákvæði sem hefði tryggt kvaðmönnum lausn eftir 36 mánuði á víglínunni. Leiðtogar Úkraínu höfðu lofað slíku ákvæði en samkvæmt AP fréttaveitunni er talið að það hafi verið fjarlægt vegna þess hve erfitt hefði verið að framkvæma það.
Úkraínumenn skortir þegar vel þjálfaða og reynslumikla hermenn og hefði ákvæðið leitt til frekari skorts í þeim efnum.
Varnarmálanefndin sagði starfsmönnum varnarmálaráðuneytis Úkraínu þó að skrifa drög að frumvarpi um lausn frá herkvaðningu á næstu mánuðum.
Skortur Úkraínumanna snýr að mestu að fótgönguliði. Meirihluta þeirra hermenna sem fallið hafa í átökum við Rússa hafa tilheyrt fótgönguliði og hefur verið deilt um það hvernig leysa eigi kvaðmenn frá þjónustu. Flestir fótgönguliðar sem hafa verið kvaddir í herinn hafa ekki haft neina leið til að snúa aftur heim án þess að særast verulega eða falla.
Ein af ástæðum þess hve langan tíma það hefur tekið að samþykkja frumvarið er hve illa hefur gengið að leysa úr þessu. Nú virðist sem ekki hafi verið leyst úr vandamálinu, heldur hafi því verið frestað um minnst átta mánuði.
Lítið til af ungum mönnum
Meðalaldurinn í úkraínska hernum hefur verið mjög hár um langt skeið. Talið er að um milljón manna þjóni í úkraínska hernum og eins og áður segir eru margir þeirra verulega þreyttir eftir langvarandi átök.
Þá er óljóst hve vel Úkraínumönnum muni ganga að fylla upp í raðir sínar, þar sem ríkið skorti fyrir unga menn. Kynslóð manna milli tvítugs og þrítugs er ein minnsta kynslóðin í nútímasögu Úkraínu.
Fæðingartíðni lækkaði í flestöllum ríkjum Sovétríkjanna eftir að þau féllu árið 1991. Hagkerfi biðu mikla hnekki og dánartíðni hækkaði. Framtíð úkraínskra fjölskyldna var óljós og fækkaði fæðingum töluvert. Meira en í Rússlandi þar sem þjóðin er einnig um fjórum sinnum stærri en sú úkraínska, samkvæmt frétt New York Times.
Árið 1991 eignuðust úkraínskar konur að meðaltali 1,9 börn. Áratug síðar hafði hlutfallið lækkað í 1,1 börn á hverja konu. Talið er að fæðingartíðni hafi einnig minnkað um helming frá 2021 til 2023, vegna innrásar Rússa.
Margir af úkraínskum mönnum milli tvítugs og þrítugs hafa þegar gengið sjálfviljugir til liðs við herinn eða vinna mikilvæg störf sem gera þá undanþegna herþjónustu.

Sérfræðingar búast við því að Rússar muni gefa í þegar sumarið nálgast og að árásir þeirra á jörðu niðri muni stækka og þeim fjölga. Hvort Úkraínumenn geti fyllt upp í raðir sínar fyrir það er óljóst.
Fyrst þarf að kveðja menn í herinn og svo þarf að þjálfa þá og undirbúa fyrir víglínuna. Þetta ferli getur tekið marga mánuði og því meiri tíma sem það tekur, því betur eiga mennirnir að vera tilbúnir fyrir átök.