Að minnsta kosti 61 er særður, þar á meðal tvö börn, að sögn viðbragðsaðila í úkraínsku borginni nærri landamærunum að Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Um 250.000 manns búa í borginni.
AP-fréttastofan segir að flugskeytin hafi hæft átta hæða íbúðarblokk. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Oleksíj Kuleba, aðstoðarskrifstofustjóra forsetaskrifstofu Úkraínu, að fjórar blokkir, sjúkrahús, tugir bílar og æðri menntastofnun hafi orðið fyrir skemmdum í árásinni. Enn sé leitað að fólki í rústunum.
Árásin er sögð hafa átt sér stað örfáum klukkustundum eftir fréttir af ætlaðri loftárás Úkraínumanna á herflugvöll hernámsliðs Rússa á Krímskaga. Staðfestar fregnir af henni hafa enn ekki borist.
Volodýmýr Selenskíj Úkraínuforseti sagði að árásin á Tsjérnihiv hefði ekki átt sér stað Úkraínumenn hefðu fengið viðhlýtandi loftvarnarbúnað frá vestrænum bandamönnum sínum. Repúblikanar á Bandaríkjaþingi hafa haldið frekari hernaðaraðstoð til Úkraínu í gíslinu undanfarnar vikur og mánuði.
Hluti Tsjérnihiv-héraðs var hertekinn við upphaf innrásar Rússa í febrúar 2022. Sjö manns féllu í flugskeytaárás á leikhús í borginni í ágúst.