Skoðun

Þekking á naloxone nef­úða getur bjargað lífi

Hildur Vattnes Kristjánsdóttir skrifar

Undanfarin ár hefur verið vaxandi ópíóíðavandi hér á landi og jafnvel talað um faraldur í því sambandi. Afleiðing tengd misnotkun ópíóíða er m.a. aukning ótímabærra dauðsfalla, oft vegna ofskömmtunar þeirra. En það er til lyf sem getur auðveldlega bjargað lífi þeirra sem hafa ofskammtað og það er einfalt í notkun.

Allir geta bjargað lífi með naloxone

Flest tilfelli ofskömmtunar eru fyrir slysni. Einstaklingar af öllum kynjum, á öllum aldri, öllum þjóðernum og af öllum stigum samfélagsins geta ofskammtað. Þeir einstaklingar sem eru í hvað mestri áhættu á ofskömmtun eru einstaklingar sem nota ópíóíðalyf sem langtíma verkjameðferð og einstaklingar sem nota ópíóíðalyf og/eða aðra ópíóíða sem vímugjafa.

Flest tilfelli ofskömmtunar verða í heimahúsi og í flestum tilvikum verður einhver vitni að því. Vinir, makar eða fjölskyldumeðlimir eru líklegustu einstaklingarnir til að verða vitni að ofskömmtun vegna ópíóíða.

Naloxone er mótefnið við ofskömmtun á ópíóíðum. Algengasta gjafaleiðin er með nefúða og getur virknin komið strax fram og varað frá nokkrum mínútum upp í allt að 90 mínútur. Naloxone er öruggt lyf og það virkar eingöngu sem mótefni ef einstaklingur er með ópíóíða í líkamanum.

Þau sem eru líkleg til að verða vitni að ofskömmtun vegna ópíóíða eru í einstakri stöðu til að geta brugðist við, gefið naloxone og bjargað lífi.

Ókeypis vefnámskeið um naloxone og notkun þess

Rauði krossinn hefur í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið búið til vefnámskeiðið Skyndihjálp og naloxone sem er endurgjaldslaust og opið öllum. Þar getur fólk kynnt sér lykilhugtökin í skaðaminnkun og skyndihjálp og hægt er að öðlast færnina, viljann og sjálfsöryggið til að bregðast við ef grunur er um ofskömmtun ópíóíða.

Í lok vefnámskeiðsins munt þú vita hvenær og hvernig á að nota naloxone nefúða til að bjarga lífi. Hægt er að nálgast vefnámskeiðið á heimasíðu Rauða krossins.

Höfundur er sérfræðingur í skyndihjálp hjá Rauða krossinum á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×