Í fyrra hlaut pilturinn fimm og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi í Holbæk fyrir tilraun til að fá skólafélaga sinn til að ganga í samtökin, en var þá sýknaður af ákæru fyrir þátttöku í samtökunum. Þeirri niðurstöðu héraðsdóms var áfrýjunardómstóllinn ósammála og dómurinn þyngdur. Pilturinn hefur ávallt neitað sök og fór fram á sýknu.
Landsréttur lagði áherslu á að pilturinn hafi „ítarlega þekkingu” á hugmyndafræði samtakanna, og komst dómari því að þeirri niðurstöðu að sannað væri að pilturinn hafi gegnt leiðandi hlutverki hjá samtökunum að því er segir í frétt Danska ríkisútvarpsins, DR, um málið.
Pilturinn var handtekinn í apríl árið 2022 eftir að lögregla hafði fengið ábendingu um að hann væri liðsmaður í samtökunum Feuerkrieg Division. Hugmyndafræði samtakanna er innblásin af nasisma og kynþáttahyggju með áherslu á yfirburði hvítra. Það var mat ákæruvaldsins að pilturinn aðhyllist verulega hugmyndafræði nasista, en meðal gagna málsins var dagbók piltsins þar sem hann lýsir sjálfum sér sem nasista. Meðal þess sem hann ku hafa skrifað eru orðin „Nýr kafli er hafinn í lífi mínu. Ég er orðinn nasisti. Ég er hvítt vald,“ og að auki mun hann hafa skrifað að hann væri „tilbúinn að deyja fyrir málstaðinn“ og að hann væri „hermaður Hitlers.“
Þessu neitaði pilturinn við aðalmeðferð málsins og kvaðst ekki kannast við þau skrif. Engu að síður var niðurstaðan sú að pilturinn var fundinn sekur og dómur þyngdur.