Kristófer spilaði aðeins tuttugu sekúndur í leiknum og var borinn út af eftir að hné hans og DeAndre Kane, leikmanns Grindavíkur, skullu saman. Við rannsóknir kom í ljós að hnéskel Kristófers mölbrotnaði, fór raunar í tvennt, og sin í hnénu slitnaði.
„Hnéskelin brotnar og sinin sem heldur henni fastri við legginn slitnaði í þokkabót. En öll krossbönd og þannig eru heil, sem betur fer. Ég fer í aðgerð núna beint eftir helgina og nýti sumarið til að koma mér aftur í gang,“ segir Kristófer.
En er þetta þá góður tímapunktur til að meiðast, í lokaleik tímabilsins?
„Ef maður horfir þannig á það er þetta kannski rétti tímapunkturinn til að meiðast. En maður hefði kannski viljað taka aðeins meiri þátt í leiknum en 20 sekúndur. En við unnum leikinn svo við getum verið sáttir með það,“ segir Kristófer.
Hann lét spítalaferðina bíða og studdi sína menn af hliðarlínunni allt til loka. Hann fór svo upp á sjúkrahús eftir leik. Valur vann annan Íslandsmeistaratitil sinn á þremur árum og Kristófer ekki óvanur því að lyfta þeim stóra. Hann gerði það þrisvar með KR og svo með Val í hitteðfyrra.
Mikið hefur gengið á hjá Val í vetur hvað varðar meiðsli og er Kristófer ekki frá því að þessi titill sé sá sætasti á hans ferli.
„Ég held það sé ekki alveg búið að settla inn ennþá. Þetta var svo skýtið í gær þegar maður sat á hliðarlínunni og leið eins maður hefði ekki gert neitt. En ég held að þegar þetta er allt komið til manns fari þetta efst,“ segir Kristófer.
Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.
